Um okkur


Kennarar

Halla björg lárusdóttir

Jógakennari, ljósmóðir og eigandi

Halla er ljósmóðir og jógakennari, hún hefur á undanförnum árum sótt ýmis jógakennaranámskeið og vinnustofur, má þar nefna 200klst. Baptiste Power yoga kennararéttindi, Yin Yoga kennararéttindi, Yoga Nidra kennararéttindi (I am Yoga Nidra) og  kennnararéttindi í meðgöngujóga frá LushTums í Bretlandi www.lushtums.com  Hún hefur kennt í yogastöðinni Iceland Power Yoga síðan í ágúst 2021 icelandpoweryoga.is  Halla hefur einnig sótt leiðbeinendanámskeið í aðferðinni Birth without fear birthbyheart.com 

Halla útskrifaðist úr ljósmóðurfræði frá Háskóla Íslands árið 2003, hún hefur lengst af starfað á Landspítala á öllum deildum fæðingaþjónustunnar og hefur meðal annars sinnt samtalsmeðferðum fyrir konur með erfiða fæðingarreynslu í Ljáðu mér eyra. Einnig starfaði hún í Bandaríkjunum um nokkurra ára skeið.

Henni er mjög umhugað að konur geti átt góða upplifun af fæðingunni sinni og vill markvisst vinna að því að valdefla konur og hjálpa þeim að finna verkfæri til að þær geti farið sjálfsöruggar inn í fæðinguna með trú og traust á eigin líkama. Í vinnu sinni sem ljósmóðir hefur hún öðlast þá trú að yoga sé besta leiðin til að undirbúa sig fyrir fæðingu, og til að takast á við fæðingu og móðurhlutverkið.

Halla er gift og á fjögur börn og einn ömmustrák sem hún var svo heppin að fá að taka á móti inn í þennan heim.

Jóhanna Margrét Gunnarsdóttir

jógakennari

Jóhanna kennir meðgöngujóga.

Jóhanna er móðir, dóttir, systir, maki og nemi. Hún hefur stundað jóga frá því í menntaskóla og öðlaðist hún 200 klst. jógakennararéttindi sumarið 2019 frá YogaWorks (yogaworks.com). Hjá yogaworks lærði hún meðal annars um meðgöngujóga en einnig hefur hún sjálf sótt sér mikla þekkingu. Hún á langan grunn úr fimleikum og einnig var hún í stangarstökki um tíma.jJóhanna útskrifaðist vorið 2020 með Bsc gráðu í sálfræði frá Háskólanum í Reykjavík og skrifaði lokaritgerðina sína um áhrif andlegrar heilsu móður á meðgöngu á líkamlega heilsu nýbura við fæðingu. Nú stundar hún nám í tannlæknisfræði við Háskóla Íslands. Hún hefur mikinn áhuga á því hvernig andleg og líkamleg heilsa spila saman.

Jóhanna er í sambúð og á einn lítinn strák, á meðgöngunni stundaði hún mikið jóga og sótti námskeið í meðgöngujóga. Hún var svo lánsöm að hafa mömmu sína (Höllu ömmu) sem ljósmóður til að taka á móti litla englinum þegar hann fæddist.

Hildur Holgersdóttir

Ljósmóðir og jógakennari

Hildur er ljósmóðir og jógakennari. Hún útskrifaðist úr ljósmóðurfræði árið 2021 og starfar nú í meðgönguvernd, á fæðingarvakt og við heimaþjónustu eftir fæðingu. Hildur byrjaði að stunda jóga árið 2014 og hefur stundað það reglulega síðan. Árið 2017 fór hún til Boston í 200 klst. jógakennaranám á vegum YogaWorks. Árið 2018 bætti hún einnig við sig 85 klst. viðbótarnámi í meðgöngu- og mömmujóga sem hún lærði í Englandi (SallyParkesYoga).

Hildur er gift og á tvö börn, Kötlu og Birki. Hildur stundaði mikið jóga bæði á meðgöngu og eftir fæðingu sem hjálpaði henni í fæðingunum og svo til að ná upp styrk, liðleika og slökun eftir fæðinguna.

Nadia pálsdóttir

jógakennari

Nadia er jógakennari og næringaráðgjafi fyrir konur á meðgöngu, eftir fæðingu og börn sem eru að byrja á fastri fæðu. Einnig er hún menntuð sem klassískur söngvari frá Listaháskóla Íslands og með tveggja ára diplóma nám i söngleikjalist frá New York.

 

Hún útskrifaðist sem jógakennari árið 2019 hjá YogaWorks í Thailandi og sem meðgöngujógakennari í Guatemala hjá School Yoga Institute. Hún útskrifaðist sem næringaráðgjafi fra Oh Baby School of Holistic Nutrition og heldur úti instagram-inu @arvamamma þar sem hún miðlar allskonar fróðleik um næringu barna og mæðra á meðgöngu jafnt sem eftir fæðingu. 

 

Nadia hefur mikla ástríðu fyrir að styðja og fylgja mæðrum í gegnum þetta dýrmæta tímabil sem er meðgangan og móðurhlutverkið. Meðgangan kallar á að við förum dýpra innra með okkur, en nokkru sinni fyrr, bæði líkamlega og andlega. Það er margt sem opnast fyrir okkur og margar breytingar sem eiga sér stað á þessu magnaða ferðalagi og það er fátt betra en að hafa samfélag og stuðning annarra kvenna í kringum sig.

 

Nadia er gift og á eina dóttur. Hún hefur verið búsett í New York síðastliðin 10 ár, þar sem hún starfaði sem jógakennari og kenndi bæði vinyasa og meðgöngujóga.

Hafdís Hanna Birgisdóttir

ljósmóðir

Hafdís kennir námskeiðið Fæðing án hræðslu

Hafdís útskrifaðist sem ljósmóðir frá Háskóla Íslands árið 2005 og hefur lengst af unnið við fæðingar á fæðingarvakt Landspítalans en einnig í 12 ár í Svíþjóð á fæðingardeildum í Helsingborg og Malmö. Síðastliðin 2 ár hefur hún  starfað á Göngudeild mæðraverndar á Landspítala og sinnir þar konum í áhættumeðgöngu. Hafdís hefur undanfarin ár einnig sinnt samtalsmeðferðum fyrir konur með erfiða fæðingarreynslu í Ljáðu mér eyra.

Hafdís hefur sótt ýmis námskeið tengt meðgöngu og fæðingu meðal annars leiðbeinendanámskeið í aðferðinni Birth without fear, http://birthbyheart.com/ og leiðbeinir foreldrum með hjálp þessarar aðferðar að takast á við fæðingarferlið í öryggi og trausti.

Hafdísi er mjög umhugað að styðja við verðandi foreldra á meðgöngu til að konan og stuðningaðili hennar eigi góða fæðingarupplifun sem styrki þau síðan í foreldrahlutverkinu.  Hún brennur fyrir því að valdefla konur í barneignaferlinu. Hún kynntist aðferðinni „ Að fæða án hræðslu“ er hún vann við fæðingar í Sviþjóð og hefur upplifað í starfi sínu hversu mikil áhrif verkfærin í hugmyndafræðinni geta haft á gang fæðingarinnar og fæðingarupplifun.

Hafdís er gift og á 3 börn.

Hugmyndafræði

Hugmyndafræði okkar má lýsa með nokkrum setningum:

  • Við viljum hlúa að andlegri og líkamlegri vellíðan verðandi móður 
  • Við viljum stuðla að og efla tengingu móður og barns á meðgöngu
  • Við viljum að allar konur upplifi sig velkomnar og öruggar
  • Við viljum valdefla og styrkja konur til að fara sterkar og sjálfsöruggar inn í fæðingu
  • Við viljum skapa samfélag

Staðsetning

Yogaljós, meðgöngujóga í Fæðingarheimili Reykjavíkur:

 

Yogaljós kennir jóga í björtum fallegum sal í Fæðingarheimilinu, umhverfið er notalegt og hlýlegt, við bjóðum allar konur velkomnar í jóga, það er ekki skilyrði að vera í annari þjónustu hjá Fæðingarheimilinu.

Við erum staðsett í Fæðingaheimli Reykjavíkur, Hlíðarfæti 17, 102 Reykjavík

http://Faedingarheimilid.is

Bílastæði eru meðfram grindverki flugbrautarinnar, gangið síðan yfir nauthólsveg og þá blasir Fæðingarheimilið við.

en_GBEnglish