Yoga

Hvers vegna meðgöngujóga?

  • Veitir andlega og líkamlega vellíðan á meðgöngu
  • Hjálpar við hinum ýmsu meðgöngukvillum
  • Þrír grunnþættir meðgönguyoga, hreyfing, öndun og slökun undirbúa þig undir fæðingu og hjálpa þér að takast á við fæðinguna.
  • Hægt að iðka alla meðgönguna en gott er að byrja í kringum 14 vikur
  • Gefur þér tækifæri til að kynnast og tengjast öðrum þunguðum konum

Þrjár grunnstoðir meðgöngujóga

Öndun
Andaðu í átt að fæðingu

Djúp og róleg öndun skerpir athygli þína, kyrrar hugann og bætir einbeitingu, hún róar taugakerfið og hvetur til slökunar. Einnig bætir hún súrefnisflæði um líkama þinn og til barnsins. Djúp og róleg öndun getur hjálpað þér gríðarlega mikið í fæðingunni, en einnig á meðgöngunni þegar þú finnur fyrir pirringi, reiði, uppgjöf, eða einbeitingarskorti.
Í meðgöngujóga gerum við ýmsar öndunaræfingar sem veita þér vellíðan og slökun og geta nýst þér í átt að betri fæðingu.

Slökun
Slakaðu í átt að fæðingu

Að finna kyrrð og ró í líkama og huga getur verið erfitt verkefni þegar maður er óléttur og hvað þá í fæðingunni! Slökunaræfingar eru frábær leið til að finna þessa kyrrð og ró. Í hverjum einasta meðgöngujógatíma gerum við langa og góða leidda slökun, við kennum þér aðferðir til að slaka á líkama og huga. Þessar aðferðir getur þú svo nýtt þér heima til dæmis ef þú átt erfitt með að sofna, eða bara ef þú ert að eiga erfiðan dag og þarft á kyrrð og ró að halda. Einnig kemur þetta til með að gagnast þér ótrúlega vel þegar að fæðingunni kemur

Hreyfing
Hreyfðu þig í átt að fæðingu

Líkaminn okkar er hannaður til að hreyfa sig, það eru ógrynnin öll af liðamótum í líkamanum sem við þurfum að hreyfa reglulega til að halda þeim mjúkum og verkjalausum.
Þegar við verðum óléttar þá finnst okkur við oft vera þungar og þreyttar og langar ekki til að hreyfa okkur mikið. En til að vera vel undirbúin þegar að fæðingu kemur er mjög mikilvægt að hreyfa sig á meðgöngunni.
Í meðgöngujóga gerum við jógastöður og hreyfingar sem eru sérstaklega til þess gerðar að styrkja og mýkja og undirbúa líkamann þannig fyrir fæðinguna.
Í fæðingunni sjáfri er líka mjög mikilvægt að vera á hreyfingu, fæðing er virkt ferli, til að barnið geti ferðast niður fæðingarveginn þarf það að taka ýmsa snúninga og til þess að auðvelda barninu þessa leið þá þarft þú líka að vera á hreyfingu.
Í meðgöngujóga kennum við þér meðal annars hreyfingar sem nýtast þér vel á mismunandi stigum fæðingarinnar.

Uppbygging MeðgöngujógaTíma

  • Við byrjum alltaf á smá samverustund, heilsum hver annari og tökum stöðuna, þú færð tækifæri til deila því ef eitthvað sérstakt er að hrjá þig þessa dagana, og við reynum að setja inn í tímann sérstakar æfingar sem eru góðar fyrir viðkomandi kvilla.
  • Næst róum við hugan og slökum inn í rýmið, skiljum allt annað eftir fyrir utan jógasalinn
  • Byrjum svo á öndunaræfingu og mjúkri upphitun.
  • Síðan förum við að hreyfa okkur, gerum yogastöður sem eru sérstaklega valdar fyrir líkama þungaðra kvenna, stöður sem auka liðleika, styrk, mýkt og einbeitingu.
  • Við leggjum mikla áherslu á að í gegnum iðkunina horfir þú inn á við, tengist sjálfri þér og barninu þínu.
  • Við endum alltaf tímann á góðri leiddri slökun, ímyndunarhugleiðslu og/eða Yoga Nidra.
 

Jóga fyrir ljósmæður

Þessir tímar eru hugsaðir fyrir ljósmæður, hvar sem þær vinna eða vinna ekki, hvort sem þær hafa aldrei farið í jóga eða eru búnar að iðka lengi. Við hugsum þetta sem dekurstund fyrir ljósmæður af því að við vitum að þær þurfa á því að halda og eiga það skilið. Þetta tækifæri til að hittast, eiga notalega stund saman og spjalla yfir tebolla eftir tímann.

Jógatíminn er 75 mínútur og í honum gerum við Yin jóga og Yoga Nidra.

Við byrjum á að gera Yin jóga, þá eru flestar stöður gerðar sitjandi eða liggjandi, þannig að flestir ef ekki allir óháð aldri og líkamsástandi geta gert yin jóga, við höldum stöðunum í 2-6 mínútur og einbeitum okkur að því að finna kyrrð, að vera í núinu og í líkamanum okkar. Við aðlögum stöðurnar með kubbum og koddum þannig að þú finnur alltaf einhvera útgáfu af stöðunni sem hentar þér. Í Yin jóga er unnið með bandvefinn í líkamanum, sinar, liðbönd, liðamót og hinar ýmsu himnur (faciur) en þessir vefir eiga það til að stífna og stirðna með aldrinum. Til að minnka stiðleika er gríðarlega mikilvægt að vinna með þessa vefi, mýkja þá og liðka. Það er mjög líklegt að þú finnir mun á þér strax eftir fyrsta tíma.

Í seinni hluta tímans gerum við Yoga Nidra, en það er svefnhugleiðsla og er stundum kallað jógískur svefn. Þú kemur þér vel fyrir liggjandi á bakinu með púða undir höfði og breiðir yfir þig teppi. Þú ert síðan leidd inn í djúpa slökun sem er endurnærandi, streitu og spennulosandi fyrir huga og líkama.

Þú kemur endurnærð á líkama og sál úr þessum tímum.

Í boði er að kaupa 5 eða 10 tíma klippikort

Jóga fyrir ljósmæður er á mánudögum kl. 19.00-20.15

Mömmujóga

Að fæða og stíga inn í móðurhlutverkið hvort sem það er í fyrsta, þriðja eða fimmta sinn er snúningspunktur í lífi hverrar konu. Þessi tími umskipta getur verið erfiður á meðan móðirin aðlagast nýjum aðstæðum og nýja hlutverkinu. Það er mikilvægt fyrir nýjar mæður að hlúa að sér, mæta sjálfri sér með auðmýkt, fá aðstoð og næra sig líkamlega og andlega. Það er fátt fallegra en samfélag, þar sem mæður koma saman til að tengjast hver annarri, deila reynslu sinni og styðja hvor aðra af alúð og samkennd. 

Þannig nærum við okkur sjálfar, börnin okkar og samfélagið í heild. 

Á þessu námskeiði munum við hlúa að og styðja þennan mikilvæga tíma. Við hugleiðum, gerum mjúkar jógaæfingar, teygjur, styrktaræfingar og tökum góða slökun. Þetta er öruggt umhverfi þar sem við í ró og næði lærum að tengjast okkar innsæi, sem er svo mikilvægt í móðurhlutverkinu, við munum hlusta, deila, tengjast okkur sjálfum og hvor annarri.

Í hverjum tíma munum við:

♥ Stunda mjúkt jóga, gera styrktaræfingar með einbeitingu á miðju og bak, teygja, opna axlir og bringu sem eru oft aumar eftir brjóstagjöf.

♥ Fá góða slökun og æfingar til að róa taugakerfið.

♥ Gera öndunaræfingar sem hjálpa við að tengja og styrkja grindarbotninn.

♥ Hugleiða

♥ Fá tækifæri til að deila reynslu okkar og fæðingarsögum.

Gott er að hafa með vatnsbrúsa, teppi til að leggja barnið á og dót sem það getur leikið með. Á staðnum er allur búnaður sem þarf til að stunda jóga en einnig verður eitthvað af leikföngum fyrir börnin til að dunda sér með á meðan móðirin fær tíma fyrir sjálfa sig. Við salinn er hurð beint út í aflokaðan garð og því hægt að geyma vagna fyrir utan salinn fyrir sofandi börn. 

Mömmujóga er kennt á þriðjudögum kl.10.00-11.15

en_GBEnglish