Að fæða án hræðslu

Aðferðin

Fæðing án hræðslu er aðferð þróuð af hinni sænsku Susönnu Heli, hún skrifaði bók um hugmyndafæðina og aðferðina, bókin heitir á sænsku Föda utan rädsla í enskri þýðingu heitir hún Birth without fear (Confident birth í fyrstu útgáfu ). Þúsundir kvenna í mörgum löndum hafa nýtt sér aðferðina í átt að betri fæðingu.

Fæðing er náttúrulegt og ótrúlega kröfugt ferli og henni fylgja sterkar og miklar tilfinningar, bæði jákvæðar og neikveiðar. Þessar sterku tilfinningar hafa mikil áhrif á gang fæðingarinnar og mjög mikil áhrif á upplifun konunnar af fæðingunni.

Að upplifa hræðslu, streitu og ótta þegar hríðarnar byrja er ekkert skrítið. Þvert á móti er það eðlilegt lífeðlisfræðilegt viðbragð líkamans við sársauka. Aðferðin snýst um að nota fjögur verkfæri til að leiða líkamann frá þessum neikvæðu tilfinningum og inn í öryggi, traust og ró. Verkfærin fjögur eru: 1. öndun, 2. slökun, 3. röddin og 4. máttur hugans. Með þessum verkfærum getur konan nýtt sér þá þekkingu sem líkaminn býr nú þegar yfir til að fæða barnið í heiminn.

Hlutverk stuðningsaðilans er mjög stórt, hann er sá sem leiðir konuna inn í öryggið með því að styðjast við verkfærin fjögur.

Aðferðin nýtist ykkur hvar sem þið kjósið að fæða, hvort og hvernig verkjastillingu sem þið kjósið og hvort sem þið fæðið um fæðingaveg eða með keisaraskurði.

Þegar við skiljum og erum undirbúin til að að takast á við neikvæðar tilfinningar og líkamleg streituviðbrögð í fæðingunni, þá höfum við lykilinn að tilfinningalegri öruggri fæðingu

Námskeið

Námskeiðið er fyrir ólétta konu og fæðingarfélaga hennar (maki, vinkona, systir, mamma…) mjög mikilvægt er að þið komið saman.

  • Mikil áhersla er lögð á hlutverk stuðingsaðilans í fæðingarferlinu, námskeiðið veitir honum þekkingu og sjálfstraust til að leiða konuna í gegnum hríðarnar með mörgum hagnýtum æfingum sem við leiðum ykkur í gegnum og auðvelt er að tileinka sér. Þegar stuðningsaðilinn hefur skýrt hlutverk og veitir nánd og stuðning, þá upplifir hin fæðandi kona aukið öryggi.
  • Um það bil helmingurinn af námskeiðstímanum fer í verklegar æfingar.
  • Boðið er upp á hressingu bæði fyrir og eftir hlé.
  • Námskeiðið er 5 klst. (inni í því er 1 klst. í matarhlé).
  • Kennarar eru Hafdís Birgisdóttir og Halla Björg Lárusdóttir, ljósmæður.

Þú býrð nú þegar yfir öllu sem þú þarft til að fæða:

Námskeiðið okkar og verkfærin leggja áherslu á að efla getu þína og barnsins, sem nú þegar er til staðar innra með ykkur. Þú og barnið hafið nú þegar alla þá þekkingu sem þið þurfið til að fæða og fæðast.

Lífeðlisfræðin er svarið:

Skýringin á mikilli útbreiðslu aðferðarinnar er einföld: hún virkar og hún virkar fyrir alla. Ástæðan fyrir þessu er að hún byggir á grunni lífeðlisfræðilegrar þekkingar og inniheldur fjölbreytt úrval verkfæra sem hafa verið þróuð og prófuð og sannað gildi sitt.

Saman eruð þið sterk:

Fyrir fæðandi konu er makinn eða annar náinn stuðningsaðili mikil uppspretta öryggis. Við lítum því á það sem eitt af okkar mikilvægustu verkefnum á námskeiðinu að veita stuðningsaðilanum hagnýta þjálfun í stuðningi, sem hjálpar ykkur að skilja hvernig þið getið notað sambandið, ástina og umhyggjuna í fæðingunni.

Svarið er já, þú getur!

Við höfum þau verkfæri sem þú og maki þinn eða annar stuðningsaðili þurfið til að skapa öryggi og tryggð, þannig undirbúið þið ykkur sem best fyrir fæðinuna og foreldrahlutverkið. Með því að prófa ykkur áfram, æfa ykkur og aðlaga verkfærin að ykkar þörfum getið þið funndið persónuleg bjargráð sem leiða ykkur til ástríkrar, öruggrar og jákvæðrar fæðingarupplifunar.

Vegna þess að þú ert þess virði.

Umsagnir þátttakenda

Eftirfarandi ummæli eru frá pari sem setið hefur námskeiðið okkar :

,Fæðing án hræðslu kom okkur verðandi foreldrum sérstaklega vel og gerði okkur betur í stakk búin til að takast á við fæðinguna í sameiningu. Námskeiðið nýtist ekki bara verðandi móður heldur er stílað inn á báða foreldrana. Það leggur áherslu á tækni sem nýtist báðum foreldrunum að takast á við hríðirnar í sameiningu, þar sem hvort um sig hefur hlutverki að gegna. Okkur fannst námskeiðið veita okkur sjálfstraust fyrir fæðingunni sjálfri og svo öryggi þegar á hólminn var komið. Má þar sérstaklega nefna öndunartæknina og samskiptin í fæðingunni. Námskeiðið var í senn persónulegt, fróðlegt og skemmtilegt og við getum heilshugar mælt með því.”

en_GBEnglish