Fæðing með hraði

Ég gekk með mitt þriðja barn, hinar tvær fæðingarnar mínar höfðu gengið vel og upplifunin verið góð. Á þessum tíma bjuggum við í Bandaríkjunum og ég var búin að ákveða að fæða í svokölluðu Birth Center sem var ca. 15 mín. frá heimili okkar. Þetta var á milli jóla og nýárs, settur dagur var 26.desember, og við hjónin vorum mikið búin að velta því fyrir okkur hvaða dag barnið myndi velja sér að koma, enda mikið af sérstökum dögum á þessum árstíma. Eftir kvöldmat þann 29. desember fór ég að finna fyrir þrýstingi niður, og seyðing í bakinu, en ekki verkjum. Þessi þrýstingur kom mjög óreglulega og oft var langt á milli. Ég hugsaði með mér að kannski væri eitthvað að byrja að malla sér af stað. Ég hélt áfram að ganga frá eftir matinn og spjalla við gestina sem voru í mat hjá okkur. Smám saman fór þrýstingurinn að verða þéttari, en ég fann ekki ennþá fyrir neinum verkjum, þegar ég fór á klósettið þá varð ég vör við að það var farið að koma blóðugt slím og nú var ég orðin viss um að eitthvað væri í vændum. Við ákváðum að maðurinn minn myndi skutla gestunum heim á meðan ég myndi hringja í ljósmóðurina og athuga hvort henni finndist ástæða til að kíkja á mig. Mamma mín var hjá okkur um þessi jól og áramót og hún var farin að ókyrrast og tala um að ég ætti nú bara að fara að drífa mig uppeftir, en ég var alveg róleg, fannst þetta ekki vera neitt neitt, því ég fann ekki fyrir neinum verkjum. Ég hringdi í ljósmóðurina og henni fannst að ég ætti að koma fljótlega í smá skoðun fyrst það væri nú farin að koma blóðlituð útferð. Kl. 20.45 fékk ég fyrstu alvöru hríðina, hún kom eins og þruma, allt í einu, ótúrlega kröftug, ég fann og vissi að nú var barnið að fara að koma, svo komu þær á 2 mín fresti, ég varla náði andanum á milli þeirra. Maðurinn minn kom inn úr dyrunum kl. 20.55, ég gat varla staðið í fæturnar, hann hálfpartinn bar mig út í bíl. Hann keyrði af stað, ég sat í framsætinu og fann að barnið var alveg koma, þegar við komum upp á hraðbrautina og bíllinn var komin á 120 km hraða (sem var leyfilegur hraði!) þá fór legvatnið og ég þurfti að rembast, úff!! þetta var það erfiðasta sem ég hafði lent í í mínum fæðingum, að þurfa halda í sér barni sem vill komast út, ég krosslagði fætur, kreysti rasskinnarnar saman, lyfti rassinum upp úr sætinu, allt til að reyna halda barninu inni í mér aðeins lengur, mig langaði EKKI að fæða barnið á 120 km hraða á hraðbraut!! kl. 21.07 var mér lyft út úr bílnum og upp á börur því ég gat ekki staðið, kl. 21.09 (ennþá á börunum) glennti ég í sundur fæturnar, rembdist og sólargeislinn hún Helga kom í heiminn. Elsku barnið orgaði fyrsta klukkutímann af lífi sínu, brjáluð yfir því að hafa ekki verið hleypt út um leið og hún ákvað að koma, örugglega uppfull af adrenalíni eins og mamma hennar eftir bílferðina á hraðbrautinni! Svo hætti hún að orga, og það heyrðist varla í henni næstu árin svo róleg var hún þessi dásemdar stúlka. Þó þessi fæðing hafi gengið hratt og vel var upplifunin frekar erfið, ég náði varla að átta mig á að ég væri í fæðingu áður en barnið fæddist og ég var í algjöru sjokki þegar þetta var yfirstaðið, mér fannst ég hafa misst af fæðingunni sem ég var búin að sjá fyrir mér í rómantískum ljóma (þetta var allt annað en rómantískt!) Smám saman hef ég sætt mig við þessa reynslu, get hlegið að þessu og séð að þetta er góð saga.

en_GBEnglish